Vinir Þjórsárvera

24. maí 2001

Ályktun almenns sveitarfundar Gnúpverja haldinn í Árnesi 24. maí 2001

Almennur fundur haldinn í Árnesi 24. maí 2001, lýsir eindreginni andstöðu við Norðlingaölduveitu og aðrar fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum og efri hluta Þjórsár.

Þjórsárver og efri hluta Þjórsár ber að vernda sem einstætt vistkerfi og landslagsheild og minnt skal á að framkvæmdir á þessu svæði verða ekki aftur teknar.

Fundurinn bendir á margþættar rannsóknir færustu vísindamanna sem sanna sérstöðu svæðisins í íslenskri náttúru, þar sem þeir vara við allri röskun af manna völdum, enda er svæðið þekkt víða um heim og stór hluti þess friðlýst.

Fundurinn vekur athygli á því að nú þegar er hefur orðið veruleg röskun á vatnafari Þjórsár með 1.-5. áfanga Kvíslaveitu.

Fundurinn minnir á ályktun fundar í Árnesi 17. mars 1972 og ítrekar fyrri mótmæli þar.

Samþykkt samhljóða

Greinargerð með ályktun um verndun Þjórsárvera

Þjórsárver eru langstærsta, fjölbreyttasta og gróskumesta gróðurvin hálendisins, auðug af fugla- og dýralífi.

Sýnt hefur verið fram á að Þjórsárver eru einstætt vistkerfi á heimsvísu og eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum. Þjórsárver eru friðlýst svæði og þau eru alþjóðlegt verndarsvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum um verndun votlendis.

Lón í Þjórsárverum orsakar öldurof og strandmyndun í vel grónu landi við Þjórsá og í kjölfarið hæfist uppblástur sem mjög erfitt yrði að stöðva og hefði víðtæk áhrif á gróður á stóru svæði.

Líta ber á Þjórsárverasvæðið sem eina heild utan sem innan markaðs friðlands vegna hins einstæða náttúrufars. Aðgerðir utan friðlands hafa keðjuverkandi áhrif innan friðlandsins.

Vatnsmagn Þjórsár hefur stórminnkað með 1.-5. áfanga Kvíslaveitu og frekari miðlun spillir hinum einstæðu fossum, Kjálkaversfossi, Dynk og Gljúfurleitarfossi.

Norðlingaölduveita stangast á við áform um sérstakt náttúruverndarsvæði með Þjórsá, sem gert er ráð fyrir í Svæðisskipulagi Miðhálendis og rýrir mikilvægi svæðisins sem útivistar- og ferðamannasvæði.

Í friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera frá 1987 er heimild veitt til að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 metra hæð yfir sjávarmáli, enda sýni rannsóknir að slík lónsmyndun sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati Náttúruverndarráðs (nú Náttúruvernd ríkisins). Með áföngum Kvíslaveitu 1.-5. sem samið var um í sömu skilmálum er hinum ásættanlegu mörkum náð enda ber skilyrðislaust að líta á umrætt svæði sem eina heild. Allar frekari framkvæmdir hafa í för með sér svo mikla röskun að óverjandi er.