Vinir Þjórsárvera

Stofnskrá félagsins Vinir Þjórsárvera

Stofnskrá félagsins Vinir Þjórsárvera

1.gr.

Félagið heitir Vinir Þjórsárvera og varnarþing þess er á Suðurlandi.

2. gr.

Félagið er opið öllum sem styðja markmið þess. Stofnfélagar eru þeir sem ganga í félagið eigi síðar en á 1. aðalfundi þess.

3. gr.

Markmið félagsins er að:

§ Veita almenningi og stjórnvöldum upplýsingar um Þjórsárver og verndargildi þeirra.
§ Fræða og veita leiðsögn um ferðir í Þjórsárver og bæta aðstöðu fyrir göngufólk á svæðinu.
§ Stuðla að því að Þjórsárverum verði ekki raskað af mannavöldum sem og að ekki verði byggð mannvirki í grennd við friðlandið sem kunna að spilla dýralífi, gróðri, víðernum, jarðmyndunum, fossum og landlagi í Þjórsarverum og vatnasviði þeirra.
§ Vinna að því að Þjórsárver verði skráð á heimsminjaskrá UNESCO.
§ Afla fjár til starfsemi sinnar og framkvæmda sem stuðla að betri verndun Þjórsárvera.

4. gr.

a) Aðalfund Vina Þjórsárvera skal halda fyrir 1. ágúst ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tölvupósti. Allir skuldlausir félagar samtakanna hafa kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi.
b) Dagskrá aðalfundar skal vera:
– Setning aðalfundar.
– Kjör fundarstjóra og annarra embættismanna fundarins.
– Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
– Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
– Ákveðið árgjald.
– Lagabreytingar.
– Kjör eins skoðunarmanns reikninga.
– Kjör stjórnar.
– Önnur mál.
c) Lagabreytingatillögur skulu berast stjórn skriflega eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund og skuli þær liggja frammi á fundinum. Til að lagabreytingar nái fram að ganga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
d) Reikningsár samtakanna er 1. maí til 30. apríl.

5. gr.

Stjórn samtakanna skal kjörin ár hvert á aðalfundi og hún skal skipuð 5 mönnum. Stjórn skipti með sér verkum.

6. gr.

Æðsta vald er í höndum lögmæts aðalfundar. Stjórn annast málefni samtakanna milli aðalfunda og gerir grein fyrir málum á félagsfundum.

Félagið skal vinn náið með öðrum félögum, samtökum og aðilum sem vinna að verndun Þjórsárvera.

Félagið er aðili að Landvernd.

7. gr.

Stjórn samtakanna boðar til félagsfunda þegar þurfa þykir, eða ef 1/3 hluti félagsmanna óskar þess.

8. gr.

Félagið er stofnað í Þjórsárverum 18. júlí 2010 og var þar kosin stjórn til að fara með málefni félgsins fram að fyrsta aðalfundi þess. Stofnskrá (lög )félagsins var samþykkt á 1. aðalfundi félagsins þann 15.-18. júlí 2011.

9. gr.

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til verndar í Þjórsárvera og nágrennis og í samræmi við markmið félagsins.

10. gr.

Ákvörðun um slit félagsins verður tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (2/3) og renna þá eignir þess til umhverfis og náttúruverndarsamtaka sem tilgreind skulu við slit félagsins og samþykkt af síðasta aðalfundi þess.

Stofnskrá (lög) þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins í Þjórsárverum í 15.- 18. júlí 2011.

Staðfesta þetta með undirskrift, þeir sem þá voru kjörnir í stjórn félagsins:

Sigþrúður Jónsdóttir, formaður
Árni Bragason
Óttar Ólafsson
Pálína Axelsdóttir
Tryggvi Felixson